Iðulega fæ ég fyrirspurnina:
„Hvernig er best að skipta innbúi við skilnað?“
Ef fólk getur hjálpast að þá er best að aðilar komi sér saman um hvernig innbúinu sé skipt. Það er auðveldara sagt en gert, því oftast eru tilfinningarnar mestar í upphafi skilnaðar og fólk tilbúið að bítast um litla hluti sem ýtir undir illindi og kergju milli aðilanna.
Meginreglan er sú að skipta eigi innbúinu til helminga. Aðilum er þrátt fyrir það heimilt að gefa eftir sinn hluta eins og þeim sýnist.
„Hvernig veit ég hvað er minn hluti?“
Aðilar þurfa að komast að samkomulagi um hvernig innbúinu er skipt.
Að mínu mati eiga aðilar fyrst að koma sér saman um aðferð við skiptin sem gætir bæði hlutleysis og sanngirnis.
Sú aðferða sem ég hef ráðlagt mínum umbjóðendum er mjög einföld og gætir bæði sanngirnis og hlutleysis.
Sú aðferð er eftirfarandi:
i. Annar aðilinn tekur að sér að deila innbúinu í tvo flokka. T.d. flokk A og flokk B.
ii. Þegar búið er að deila innbúinu upp í tvo flokka fær hinn aðilinn að velja hvorn flokkinn hann fær.
Með þessari aðferð reynir sá sem velur í flokka að hafa flokkanna jafna og eins sanngjarna og hægt er.
Þessi leið virkar líka í skrefum. Sem dæmi: Fyrst er stórum hlutum skipt í tvo flokka og skipt. Eftir það eru minni hlutum skipt með sama hætti. Önnur leið er að hverju rými er skipt upp í tvo flokka og valið með sama hætti.
Þrátt fyrir að innbúinu sé skipt upp með þessari aðferð þá er aðilum heimilt að býtta úr sínum hluta eftir á.
Með von um að þessi aðferð hjálpi sem flestum.
Hafðu samband til að fá aðstoð.




